Vilja Kanté í staðinn fyrir Pogba

N'Golo Kanté var einn þeirra sem tilnefndir voru sem besti …
N'Golo Kanté var einn þeirra sem tilnefndir voru sem besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í vetur. AFP

Ítalíumeistarar Juventus eru búnir að finna leikmann til að fylla skarð Paul Pogba fari svo að franski miðjumaðurinn yfirgefi herbúðir félagsins í sumar.

Þetta fullyrðir ítalska blaðið Gazzetta dello Sport sem segir að Juventus muni freista þess að fá N‘Golo Kanté, eina af stjörnum Leicester-liðsins sem er langt komið með að landa Englandsmeistaratitlinum.

Stærstu félög Evrópu renna hýru auga til Pogba, þar á meðal Barcelona, Real Madrid og Manchester City. Juventus vill gjarnan halda Pogba en sala á honum gæti hugsanlega skilað félaginu um 100 milljónum punda, jafnvirði 18 milljarða króna.

Kanté hefur slegið í gegn hjá Leicester eftir að hafa komið frá Caen síðasta sumar fyrir 5,6 milljónir punda. Bæði Arsenal og Real Madrid eru sögð vera með hann í sigtinu en verðið á þessum 25 ára gamla Frakka er talið vera nú um 30 milljónir punda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert