Southampton fór illa með Manchester City

Markahrókurinn Sergio Aguero byrjar á varamannabekknum í dag
Markahrókurinn Sergio Aguero byrjar á varamannabekknum í dag AFP

Southampton vann Manchester City 4:2 þegar liðin mættust í 36. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag.

Sadio Mane átti stórleik fyrir Southampton og skoraði þrennu en Shane Long kom heimamönnum á bragðið.

Táningurinn Kelechi Iheanacho skoraði bæði mörk Manchester City,sem missti af gullnu tækifæri að skilja erfjendur sína í Manchester United sjö stigum á eftir sér í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu.

Manchester City er í fjórða sæti með 64 stig að loknum 36 leikjum en Manchester United hefur 60 stig eftir 35 leiki.

Southampton skaust upp fyrir Liverpool í sjöunda sæti deildarinnar og er í ágætri stöðu að tryggja sér sæti í Evrópudeildinni á næsta ári. 

90. mín. Leik lokið  Öruggur og sanngjarn sigur heimamanna.

78.mín. MARK! Kelechi Iheanacho skorar fallegt mark fyrir Man. City. Framherjinn efnilegi fékk boltann fyrir utan teig og smellti honum með vinstri upp í markhornið.

68. mín. MARK! Nú er þetta komið hjá heimamönnum í Southampton. Sadio Mane skorar þriðja mark sitt og hann er að fara heim með boltann í leikslok! Frábær skyndisókn Southampton endar með enn einni stungusendingunni í gegnum flata vörn City og Mane skorar af yfirvegun á nærhornið hjá Joe Hart.

57. mín. MARK! Sadio Mane skorar annað mark sitt og þriðja mark Southampton. Eftir mikla þvögu í vítateig Manchester City, berst boltinn á fjærstöng þar sem Mane setur hann inn með vinstri fæti. Aftur eru heimamenn komnir í draumastöðu til að landa dýrmætum sigri.

45. mín. Hálfleikur. Southampton virtist vera með öll ráð City í höndum sér en mark á besta tíma gefur Manchester-mönnum auka trú á verkefninu í seinni hálfleik.

44. mín. MARK! Kelechi Iheanacho að minnka muninn fyrir City. Samir Nasri keyrði upp hægri vænginn og kom boltanum fyrir markið. Southampton náði ekki að hreinsa boltann lengra en á kollinn á Iheanacho sem skallaði boltann í netið. Sjötta mark hans á tímabilinu.

28. mín. MARK! Nú rignir mörkum á St. Mary´s! Aftur er það Tadic sem er arkitektinn. Frábær stungusending hans ratar á Sadio Mane sem klárar af yfirvegun framhjá Hart í markinu. Southampton í vænlegri stöðu á heimavelli.

25 mín. MAAAAARRRKKKK! Shane Long kemur Southampton yfir með snotru marki. Dusan Tadic sendir boltann fyrir markið með utanverðum fætinum og þar mætir írski framherjinn fyrstur allra og skorar gott mark.

10 mín. Ágætur hraði í leiknum og liðin skiptast á að sækja. Southampton á ennþá góða möguleika að landa sæti í Evrópudeildinni en City-menn þurfa góð úrslit til að styrkja sig í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni

1 mín. Leikurinn er hafinn

Byrjunarlið Manchester City: Hart, Zabaleta, Kolorov, Mangala, Otamendi, Sterling, Nasri, Delph, Fernandinho, Bony, Iheanacho

Byrjunarlið Southampton: Forster, Fonte, Martina, van Dijk, Bertrand, Clasie, Davis, Mane, Tadic, Wanyama, Long

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert