Leicester er enskur meistari

Eden Hazard fagnar glæsilegu marki sínu þar sem hann jafnaði …
Eden Hazard fagnar glæsilegu marki sínu þar sem hann jafnaði fyrir Chelsea í 2:2. AFP

Leicester City er enskur meistari í knattspyrnu í fyrsta skipti eftir að Chelsea og Tottenham skildu jöfn, 2:2, á Stamford Bridge í London í kvöld. Tottenham varð að vinna til að eiga möguleika á að ná titlinum úr höndum Leicester.

Leicester er með 77 stig en Tottenham 70 þegar tveimur umferðum er ólokið og nú er ljóst að leikmenn Leicester verða krýndir formlega meistarar á heimavelli þegar þeir taka á móti Everton á laugardaginn kemur. 

Tottenham virtist vera með allt í hendi sér eftir að hafa náð 2:0 forystu í fyrri hálfleik þegar Harry Kane og Sun Heung-Min skoruðu. Chelsea tók hinsvegar völdin á vellinum í seinni hálfleik og jafnaði metin með mörkum frá Gary Cahill og Eden Hazard.

90. BÚIÐ!

90. Spjöldin fjúka, nú fær Ryan Mason gult fyrir að klippa niður Eden Hazard. Uppbótartími liðinn.

90. Chelsea er líklegri aðilinn í uppbótartímanum. Allt púður virðist úr Tottenham. Grunnt á því góða milli leikmanna, Moussa Dembélé fær nú gula spjaldið eftir smá uppþot á miðum vellinum.

90. Uppbótartíminn er 6 mínútur, enda mikið af töfum í seinni hálfleiknum.

87. Tottenham er búið að missa öll tök á þessu. Nú brýtur Erik Dier illa á Eden Hazard og fær að sjálfsögðu gula spjaldið. Og sjónvarpsmyndir sýna ljótt brot Eriks Lamela á Cesc Fabregas áðan.

85. Nú er allt á hvolfi í Leicester þar sem múgur og margmenni fylgist með leik Chelsea og Tottenham í miðbænum. Jamie Vardy framherji Leicester er sagður vera með veislu fyrir liðið heima hjá sér. Bærileg stemning þar núna!

83. MARK - 2:2 og hvergi fagnað meira en í Leicester! Eden Hazard með stórglæsilegt mark eftir sendingu frá Diego Costa. Ef þetta eru lokatölurnar er Leicester Englandsmeistari!

76. Asmir Begovic í marki Chelsea ver vel frá Ryan Mason af stuttu færi. Munaði litlu að Tottenham skoraði þriðja markið þarna.

71. Og svo fer Branislav Ivanovic hjá Chelsea í bókina fyrir gult spjald. Stöðvaði álitlega sókn Tottenham.

70. Tottenham-menn safna gulum spjöldum. Nú er það Christian Eriksen fyrir brot.

63. Allt annað að sjá Chelsea í seinni hálfleik og nú lýkur þungri sókn með ágætu færi hjá Willian en Hugo Lloris ver skot hans.

58. MARK - 1:2. Er Chelsea að hjálpa Leicester? Hornspyrna og Gary Cahill þrumar boltanum í mark Tottenham, rétt utan markteigs. Annað mark og þá er Leicester meistari!

51. Erik Lamela hjá Tottenham fær gula spjaldið fyrir hressilega tæklingu.

46. Seinni hálfleikur er hafinn - staðan 0:2. Eden Hazard er kominn inná fyrir Pedro hjá Chelsea.

45. Hálfleikur. Staðan er 0:2 og Tottenham á enn ágæta von um meistaratitilinn. Ef þetta endar svona  verður Leicester með 77 stig og Tottenham 72 þegar tvær umferðir eru eftir. Markatala Tottenham er betri svo Leicester þarf þá alltaf tvö stig.

44. Allt sýður uppúr á Stamford Bridge, leikmenn og forráðamenn í stimpingum á hliðarlínunni! Mark Clattenburg spjaldar Danny Rose og William en upptökin voru brot Rose á William. Mauricio Pochettino stjóri Tottenham hreinlega kastaði sér á milli þeirra til að koma í veg fyrir slagsmál! Moussa Dembélé hjá Tottenham gæti verið í vondum málum því sjónvarpsmyndir sýna að hann setti höndina í andlit Diego Costa í látunum.

43. MARK - 0:2. Mistök Chelsea-manna á eigin vallarhelming, Christian Eriksen nær boltanum og rennir honum innfyrir vörnina á Son Heung-Min sem skorar.

39. Tottenham nærri því að skora aftur en Chelseamenn bjarga á síðustu stundu. Jan Vertonghen er nýkominn með gult spjald eftir samskipti við Diego Costa.

34. MARK - 0:1. Harry Kane kemur Tottenham yfir, fær sendingu frá Erik Lamela innfyrir vörnina, leikur á Asmir Begovic og rennir boltanum í tómt markið. Kane er kominn með 25 mörk í deildinni og meistaradraumur Tottenham lifir enn.

31. Chelsea-menn eru líklegri þessa stundina og Hugo Lloris ver hörkuskot frá Diego Costa í horn.

26. Cesc Fabregas í góðu færi og á skot hárfínt framhjá marki Tottenham. Kyle Walker hjá Tottenham fær fyrsta gula spjaldið.

20. Staðan er 0:0 og Leicester er meistari ef þetta helst óbreytt. Hörkuleikur á Stamford Bridge.

10. Staðan er 0:0 og Chelsea hefur fengið besta færið til þessa þegar Gary Cahill skallaði rétt framhjá marki Tottenham.

1. Leikurinn er hafinn.

Lið ChelseaBegovic; Ivanovic, Cahill, Terry, Azpilicueta; Mikel, Matic; Willian, Fabregas, Pedro; Diego Costa.

Lið Tottenham: Lloris, Walker, Alderweireld, Vertonghen, Rose, Dier, Dembele, Lamela, Eriksen, Son, Kane.
Varamenn: Vorm, Davies, Wimmer, Carroll, Chadli, Mason, Clinton

Harry Kane fagnar eftir að hafa komið Tottenham yfir á …
Harry Kane fagnar eftir að hafa komið Tottenham yfir á Stamford Bridge í kvöld. AFP
Pedro og Kyle Walker í leik Chelsea og Tottenham í …
Pedro og Kyle Walker í leik Chelsea og Tottenham í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert