Við erum eins og bræður

Wes Morgan fyrirliði Englandsmeistara Leicester.
Wes Morgan fyrirliði Englandsmeistara Leicester. AFP

„Þetta er mín besta stund á ferlinum og ég gæti ekki verið stoltari af því að vera hluti af þessu liði," sagði Wes Morgan, fyrirliði Leicester City, við BBC í kvöld eftir að ljóst varð að lið hans var orðið enskur meistari í knattspyrnu í fyrsta skipti.

Leikmenn Leicester mættu heim til framherjans Jamie Vardy og fylgdust þar með sjónvarpsútsendingu frá leik Chelsea og Tottenham. Jafnteflið þar, 2:2, gerði út um vonir Tottenham um að ná Leicester að stigum.

„Allir lögðu gífurlega hart að sér til að þá þessu takmarki. Enginn hafði trú á að við gætum þetta en hér erum við - enskir meistarar og það verðskuldað," sagði Morgan.

„Ég hef aldrei vitað annan eins liðsanda og er í þessum hópi. Við erum eins og bræður. Fólk sá það síðasta vetur þegar allir reiknuðu með því að við myndum falla en við náðum að koma öllum á óvart. Þetta tímabil hefur haldið áfram á sömu braut. Við byggðum ofan á þetta en ég held að enginn hafi dreymt um að við færum alla leið.

Ég get ekki beðið eftir laugardeginum og að fá að handleika bikarinn," sagði Wes Morgan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert