Biður stjörnurnar um að vera um kyrrt

Claudio Ranieri.
Claudio Ranieri. JUSTIN TALLIS

Ítalinn Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Leicester, uppskar standandi lófaklapp er hann mætti á blaðamannafund í dag, þann fyrsta eftir að Leicester varð meistari.

Ranieri stýrði Leicester á ótrúlegan hátt til sigurs í ensku úrvalsdeildinni, þvert á spár allra sérfræðinga, enda Leicester í fallbaráttu á síðustu leiktíð og með mikið minna fjármagn á milli handanna en keppinautar liðsins um titilinn.

Nú velta margir fyrir sér hvað skærustu stjörnur liðsins taki sér fyrir hendur á næsta tímabili en telja má næsta víst að hvert stórliðið á fætur öðru muni elta leikmenn eins og Riyad Mahrez og N’Golo Kante uppi.

Ranieri hefur þó ekki of miklar áhyggjur af því. Aðspurður um það sagði hann í dag:

„Ég er mjög, mjög öruggur (um að þeir fari ekki),” sagði Ranieri og hélt áfram.

„Ekki fara. Ef þú ferð í annað lið kemstu kannski ekki í byrjunarliðið,” sagði Ranieri. Hann játaði þó að lið utan Englands og á Englandi hefðu sýnt Mahrez áhuga.

Hann tók það einnig fram að hann muni ekki reyna að lokka til sín stór nöfn, en Leicester mun spila í Meistaradeild Evrópu, sem hefur alltaf haft mikið aðdráttarafl fyrir góða leikmenn.

„Ég vil engin stór nöfn hér. Mínir leikmenn eru einstakir. Við munum þurfa að fá einhverja góða leikmenn, en þeir þurfa að hafa sama keppnisskap,” sagði Raniero.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert