Gylfi ekki meira með Swansea á tímabilinu

Gylfi Þór er kominn í kærkomið frí og verður ferskur …
Gylfi Þór er kominn í kærkomið frí og verður ferskur á EM í sumar. GEOFF CADDICK

Francesco Guidolin knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Swansea hefur gefið það út að landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson ásamt tveimur liðsfélögum sínum verði ekki meira með Swansea á tímabili liðsins í ensku úrvalsdeildinni.

Gylfi er sagður meiddur á öxl og sagður þurfa á hvíld að halda í frétt South-Wales Evening Post. Þar kemur einnig fram að hann muni fá læknismeðferð.

Gylfi er í viðtali við Morgunblaðið í dag og nefnir þar engin meiðsli og því má ætla að þau séu minni háttar.

Alan Curtis aðstoðarþjálfari Swansea sagði á dögunum að þar sem liðið væri búið að tryggja veru sína í úrvalsdeildinni kæmi það vel til greina að hvíla þá leikmenn liðsins sem spilað hefðu stórt hlutverk og væru á leið á EM í Frakklandi í sumar.

Það á sannarlega við um Gylfa sem ásamt landsliðsmönnum Wales, þeim Ashley Williams og Neil Taylor, munu ekki spila meira með liðinu á tímabilinu.

„Neil og Gylfi eru meiddir, það er betra að þeir hvílist svo þeir verði klárir fyrir næsta tímabil,” sagði Guidolin.

Williams fær hreinlega að fara í frí en hann er fyrirliði bæði Swansea og velska landsliðsins og hefur spilað hverja einustu mínútu með lið Swansea í úrvalsdeildinni á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert