Leicester-liðið fjórum sinnum dýrara

Leikmenn Leicester hafa hækkað duglega í verði í vetur.
Leikmenn Leicester hafa hækkað duglega í verði í vetur. AFP

Leikmannahópur Englandsmeistara Leicester var keyptur fyrir aðeins 57 milljónir punda, jafnvirði rúmlega 10 milljarða króna. Til samanburðar má nefna að Raheem Sterling var seldur frá Liverpool til Manchester City fyrir 50 milljónir punda.

Skærustu stjörnur Leicester-liðsins, menn eins og Jamie Vardy og Riyad Mahrez, kostuðu sáralítið en eru í dag afar verðmætir. Vardy kom til Leicester fyrir 1 milljón punda og Mahrez kostaði 400.000 pund.

„Ef maður skoðar Vardy og Mahrez þá myndu þeir tveir örugglega geta farið á 70 milljónir punda núna,“ sagði David Seligman, umboðsmaður og íþróttalögfræðingur, við BBC. „Leikmannahópurinn núna er yfir 200 milljóna punda virði,“ sagði Seligman, en það myndi þýða að virði leikmannahópsins hafi nánast fjórfaldast.

Dýrasti leikmaðurinn sem Leicester keypti á leið sinni að Englandsmeistaratitlinum var Leonardo Ulloa sem kostaði félagið 10 milljónir punda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert