Ranieri bauð upp á kampavín - Eldaði mat yfir leiknum

Claudio Ranieri er vinsælasti maður Leicester og skyldi engan undra.
Claudio Ranieri er vinsælasti maður Leicester og skyldi engan undra. AFP

Claudio Ranieri var kampakátur þegar hann heilsaði upp á fjölmiðlamenn í dag á fyrsta fjölmiðlafundinum eftir að hann stýrði Leicester til Englandsmeistaratitils.

Fundargestum var boðið upp á kampavín í tilefni titilsins, en það mun hafa verið hugmynd Ranieris, samkvæmt BBC. „Skál,“ sagði Ranieri, áður en hann hóf að svara spurningum.

„Frá upphafi tímabilsins hef ég fundið fyrir einhverju alveg einstöku. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér þetta, en þetta er gott. Við höfum lagt svo hart að okkur. Mig langar að þakka leikmönnunum, eigandanum, starfsfólkinu og stuðningsmönnunum. Þeir voru ótrúlegir,“ sagði Ranieri.

Ítalinn staðfesti að landi sinn, óperusöngvarinn Andrea Bocelli, myndi mæta King Power-leikvanginn og syngja.

Ranieri kvaðst hafa tekið því rólega á mánudagskvöld, þegar Chelsea og Tottenham gerðu jafntefli sem þýddi að titillinn væri Leicester-manna.

„Ég horfði á leikinn. Í hálfleik bjó ég til kvöldmat. Ég slappaði af þar til að seinna markið [hjá Chelsea] kom. Eftir það þá stökk ég upp! Þetta var samt aðeins rólegra en heima hjá Jamie Vardy,“ sagði Ranieri, en leikmenn Leicester fögnuðu titlinum heima hjá Vardy með látum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert