Vill vera kyrr hjá Leicester

Ryan Mahrez.
Ryan Mahrez. AFP

Ryan Mahrez, alsírski sóknarmaðurinn hjá Leicester sem var kjörinn besti leikmaður tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, vill vera um kyrrt hjá Englandsmeisturunum þrátt fyrir fregnir um mikinn áhuga stórra félaga á honum.

Áður hafði umboðsmaður hans sagt að það væru helmingslíkur á að Mahrez myndi yfirgefa Leicester í sumar. Ensku dagblöðin sem komu út nú undir miðnættið segja hinsvegar flest að Mahrez hafi tilkynnt að hann vilji vera áfram hjá félaginu.

Daily Express gengur lengst og fullyrðir að Mahrez sé þegar búinn að ganga frá málum. Mahrez gerði nýjan samning við Leicester til fjögurra ára í upphafi þessa tímabils.

Mahrez er 25 ára gamall, fæddur í Frakklandi en hefur leikið fyrir landslið Alsír frá 2014. Foreldrar hans eru þaðan. Leicester keypti hann fyrir lítið fé af B-deildarliðinu Le Havre í janúar 2014 en hann hefur skorað 24 mörk í 84 leikjum fyrir liðið í úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert