Henderson klár fyrir EM en tæpur fyrir úrslitin

Jürgen Klopp og Jordan Henderson á blaðamannafundi á tímabilinu.
Jürgen Klopp og Jordan Henderson á blaðamannafundi á tímabilinu. AFP

Jordan Henderson, fyrirliði enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool, verður klár í slaginn þegar flautað verður til leiks á EM í Frakklandi sem hefst í júní, þar sem England er á meðal þátttökuþjóða að vanda.

Það segir Jürgen Klopp, stjóri hans hjá Liverpool.

Henderson skaddaði liðband í hné þann 7. apríl gegn Dortmund í Evrópudeildinni og var búist við því að hann yrði frá í átta vikur. 

„Hendo er á mjög góðri leið, það er gott fyrir England. Það leikur enginn vafi á því að hann verður klár fyrir Evrópumótið,” sagði Klopp.

Klopp segir einnig að Henderson eigi möguleika á að ná úrslitaleik Evrópudeildarinnar sem fram fer þann 18. maí næstkomandi í Basel. Þar mætir Liverpool tvöföldum Evrópudeildarmeisturum Sevilla.

„Ég sé það í augum hans að hann heldur að hann eigi mögulega (að verða klár fyrir úrslitaleikinn). Það er fyrsta og mikilvægasta skrefið í rétta átt,” sagði Klopp.

Klopp bætti því þó við að það sé nauðsynlegt fyrir Henderson að vera klár í slaginn fyrr, og þá í síðasta lagi fyrir síðasta leik Liverpool í ensku úrvalsdeildinni gegn West Bromwich, svo hann geti tekið þátt í úrslitaleiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert