Moyes ætlar ekki að taka við Aston Villa

David Moyes.
David Moyes. AFP

David Moyes, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, hefur útilokað að hann taki við stöðu þjálfara Aston Villa, en hann hefur verið undir smásjá liðsins eftir að Remi Garde sagði af sér í mars. Þetta kemur fram á vefsíðu BBC.

Skotinn var síðast þjálfari Real Sociedad í spænsku 1. deildinni en hann var látinn taka poka sinn í nóvember síðastliðinn. Honum hefur ekki enn tekist að ná sér á strik síðan hann tók við af Sir Alex Ferguson sem knattspyrnustjóri Manchester United.

Hann hafði áhuga á að taka við sem stjóri Aston Villa, í von um að vera falið svipað hlutverk og hjá Everton, þar sem hann fagnaði góðu gengi, en óþolinmæði félagsins virðist hafa fælt hann á brott. Félagið vill fá nýjan stjóra strax, þrátt fyrir að eigendaskipti séu á næsta leiti.

Aston Villa lauk síðasta tímabilinu á botni ensku úrvalsdeildarinnar með 17 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert