Stoltur en vonsvikinn Van Gaal kveður United

Louis van Gaal kveður Manchester.
Louis van Gaal kveður Manchester. AFP

„Það hefur verið sannur heiður að vera knattspyrnustjóri hjá jafnfrábæru liði og Manchester United og með því hef ég svalað metnaði mínum,“ sagði fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, Louis van Gaal, í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér nú í kvöld.

Manchester United sagði Van Gaal upp störfum í dag en undir hans stjórn varð liðið enskur bikarmeistari á laugardaginn.

„Ég er gríðarlega stoltur af því að hafa hjálpað United að vinna ensku bikarkeppnina í tólfta skipti í sögunni. Ég hef unnið marga titla en það er sérstakt að vinna svona merkilega keppni, eins og enska bikarkeppnin er. Þetta er því eitt mesta afrek á mínum þjálfaraferli,“ sagði van Gaal enn fremur. Hann sagðist þó vera vonsvikinn með endalok sín hjá United:

„Ég er gríðarlega vonsvikinn með að fá ekki að klára áætlað þriggja ára plan. Ég hef trú á því að grunnurinn til að ná frábærum árangri sé til staðar og vonandi var sigurinn í bikarkeppninni eingöngu stökkpallur fyrir næsta tímabil.“

Að lokum sagði Hollendingurinn að tíminn hjá United hafi verið skemmtilegur. „Ég vil þakka leikmönnunum fyrir samvinnuna og óska þeim alls hins besta í framtíðinni. Einnig vil ég þakka stjórninni fyrir að gefa mér tækifærið til að stýra þessu frábæra liði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert