Giggs boðin staða í þjálfarateymi Mourinhos

Ryan Giggs mun líklega liggja undir feldi næstu daga.
Ryan Giggs mun líklega liggja undir feldi næstu daga. AFP

Samkvæmt enska fréttamiðlinum The Guardian hefur Ryan Giggs verið boðin staða í þjálfarateymi Josés Mourinhos þegar sá portúgalski tekur við Manchester United í sumar. Honum er þó af sjálfsögðu velkomið að hafna.

Búist er við því að Mourinho verði ráðinn innan tveggja sólarhringa, en Ed Woodward, varaformaður stjórnar félagsins, á eftir að funda með stjörnuumboðsmanninum Jorge Mendes, sem er fulltrúi Mourinhos. Giggs hefur verið fullvissaður um að hann eigi enn framtíð fyrir sér á Old Trafford. 

Giggs hefur verið aðstoðarþjálfari Louis van Gaal síðustu tvö ár en Hollendingurinn var látinn taka pokann sinn í gær. Ef Giggs fylgir honum út um dyr Old Trafford bindur goðsögnin enda á 25 ára samstarf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert