Ætla að þurrka út síðustu þrjú ár

José Mourinho, nýráðinn knattspyrnustjóri Manchester United.
José Mourinho, nýráðinn knattspyrnustjóri Manchester United. AFP

„Mér líður frábærlega og ég tel mig vel undirbúinn fyrir þetta starf. Manchester United er afar stórt félag. Það er því eins gott að vera viss um að þú hafir það sem þarf og undirbúir þig af kostgæfni áður þú tekur við starfi knattspyrnustjóra félagins,“ sagði José Mourinho, nýráðinn knattspyrnustjóri Manchester United, í samtali við MUTV skömmu eftir að tilkynnt var um ráðningu hans. 

„Ég tel mig nógu góðan knattspyrnustjóra til þess að standast þessa miklu áskorun og get ekki beðið eftir því að byrja. Ég kýs að þurrka út síðustu þrjú ár og hugsa frekar um glæsta sögu félagsins þar áður. Það er mitt verk að hefja félagið til vegs og virðingar á nýjan leik og ég hlakka mikið til þess að gera það,“ sagði Mourinho enn fremur.

„Ég er kominn hingað til þess að vinna titla og ég vil að leikmenn liðsins og stuðningsmenn félagsins fái trú á það aftur að það sé raunhæft. Ég veit hvað ég get gefið stuðningsmönnum með því að koma félaginu upp á þann stall þar sem félagið á heima. Stuðningsmennirnir vita einnig hvað þeir geta gefið mér og leikmönnum liðsins,“ sagði Mourinho, spurður um hvort hann hefði áhyggjur af því hvernig stuðningsmenn Manchester United muni taka honum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert