Rashford og Rooney tryggðu Englandi sigur

Rooney fagnaði markinu sínu innilega.
Rooney fagnaði markinu sínu innilega. AFP

England sigraði Ástralíu, 2:1, í vináttulandsleik í knattspyrnu í kvöld en leikið var á heimavelli Sunderland í norðurhluta Englands.

Ungstirnið Marcus Rashford var ekki nema rúmlega tvær mínútur að skora sitt fyrsta landsliðsmark í sínum fyrsta landsleik. Samherji hans hjá Manchester United og fyrirliði Englands, Wayne Rooney, bætti öðru marki við á 55. mínútu.

Ástralar klóruðu í bakkann þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Eric Dier, miðvallarleikmaður Tottenham, varð þá fyrir því óláni að skalla boltann í eigið mark en Dier hafði skömmu áður komið inn á sem varamaður.

Fleiri urðu mörkin ekki en England býr sig undir Evrópumótið í Frakklandi. Enskir eru í B-riðli ásamt Wales, Slóvakíu og Rússlandi og mæta Rússum í fyrsta leik, laugardaginn 11. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert