Diame skaut Hull aftur í úrvalsdeildina

Mohamed Diame fagnar úrvalsdeildarsætinu.
Mohamed Diame fagnar úrvalsdeildarsætinu. AFP

Hull City er komið aftur upp í ensku úrvalsdeildina eftir aðeins árs fjarveru en liðið sigraði Sheffield Wednesday 1:0 í úrslitaleik B-deildarinnar í dag. Mohamed Diame var maðurinn sem tryggði Hull sigurinn í verðmætasta leik Evrópu.

Það er í raun ótrúlegt hvernig Hull komst inn í úrslitaleik B-deildarinnar en liðið tapaði í undanúrslitum umspilsins fyrir Derby, 2:0, á heimavelli. Hull kom hins vegar til baka í síðari leiknum og vann hann 3:0.

Sheffield Wednesday hafði á meðan betur í einvígi gegn Brighton en fyrri leikurinn fór 1:1 en Sheffield vann síðari leikinn 2:0.

Hart var barist í dag er liðin mættust á Wembley. Úrslitin réðust þó ekki fyrr en á 72. mínútu en þá skoraði franski miðjumaðurinn Mohamed Diame. Boltinn söng í netinu eftir frábært langskot Diame.

Lokatölur 1:0 fyrir Hull sem er komið aftur upp í ensku úrvalsdeildina en liðið féll niður í B-deildina á síðustu leiktíð. Þetta er verðmætasti leikur Evrópu en verðmæti hans nemur um 200 milljónum punda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert