Vardy ætti að grípa gæsina

Vardy undirbýr sig nú fyrir leik á EM í knattspyrnu. …
Vardy undirbýr sig nú fyrir leik á EM í knattspyrnu. Fyrsti leikur Englands er á laugardag. AFP

Fyrrverandi knattspyrnukappinn og núverandi knattspyrnusérfræðingur Sky Sports, Alan Smith, telur að Jamie Vardy eigi að grípa gæsina og ganga til liðs við Arsenal frá Leicester.

Smith var sjálfur í sömu stöðu árið 1987 þegar hann gekk til liðs við Arsenal frá Leicester. Að vísu hafði Leicester þá ekki orðið enskur meistari um vorið, líkt og nú.

Arsenal hefur boðið 20 milljónir punda í Vardy sem Leicester varð að samþykkja vegna klásúlu í samningi hans. Sóknarmaðurinn hefur sjálfur legið undir feldi í nokkra daga og ekkert tjáð sig um hvort hann fer eða verður um kyrrt.

„Ég veit að Leicester verða í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili en Arsenal er hins vegar eitt af stærstu liðum landsins. Stuðningsmenn Leicester verða líklega pirraðir þegar þeir lesa þetta en ég ráðlegg Vardy að grípa tækifærið,“ sagði Smith.

„Álíka tækifæri kemur ekki aftur og leikmenn verða að gera það sem þeir geta til að nýta svona möguleika,“ bætti Smith við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert