Touré fer frá Liverpool í dag

Kolo Touré var afar vinsæll á meðal stuðningsmanna Liverpool.
Kolo Touré var afar vinsæll á meðal stuðningsmanna Liverpool. AFP

Kolo Touré mun ekki leika með Liverpool á næstu leiktíð. Samningur hans rann út í dag og honum hefur ekki verið boðinn nýr samningur samkvæmt Liverpool Echo.

Touré hefur verið í aukahlutverki hjá Liverpool síðustu ár en fékk þó talsvert að spila á síðustu leiktíð. Þar á meðal var hann á meðal bestu manna í annars slæmu tapi Liverpool í úrslitaleik Evrópudeildarinnar gegn Sevilla.

Touré, sem er 35 ára gamall, var boðin þjálfarastaða hjá félaginu, en hann hafnaði því boði þar sem hann vill halda áfram ferli sínum sem leikmaður.

Touré lék 71 leik fyrir Liverpool eftir að hafa gengið í raðir félagsins árið 2013 frá Manchester City, en hann lék 25 leiki á síðustu leiktíð.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur þegar fengið miðvörðinn þýska frá Schalke, Joel Matip, og þá er hinn ungi Joe Gomez að koma til baka eftir erfið meiðsli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert