Birkir hefur heillað Liverpool Echo

Birkir Bjarnason fagnar marki sínu gegn Portúgal.
Birkir Bjarnason fagnar marki sínu gegn Portúgal. AFP

Sagt er að enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool sé þegar búið að ákveða hvaða knattspyrnumönnum það muni fjárfesta í í sumar. Staðarblaðið Liverpool Echo telur þó vert að nefna nokkra aðra leikmenn sem hafa heillað á EM í Frakklandi og gætu styrkt liðið. 

Þar kemur íslenski landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason til sögunnar. Birkir gekk í raðir svissneska félagsins Basel fyrir síðasta tímabil og hefur staðið sig vel í leikjum Íslands til þessa og skoraði til að mynda sögulegt jöfnunarmark gegn Portúgal í fyrsta leiknum.

„Hetjan í jafntefli Íslands við Portúgal. Þessi fjölhæfi miðjumaður hefur verið notaður vinstra megin í 4-4-2 á Evrópumótinu en getur einnig leikið á miðri miðjunni. Hann býr yfir miklu þoli og er nokkuð kröftugur,“ segir í frétt Liverpool Echo.

Auðvitað eru þetta aðeins getgátur en ljóst er að stuðningsmenn Liverpool á Íslandi myndu ekki gráta komu Birkis til félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert