„Þekki Lars Lagerbäck mjög vel“

Roy Hodgson á æfingu enska landsliðsins í dag í Chantilly …
Roy Hodgson á æfingu enska landsliðsins í dag í Chantilly í Norður-Frakklandi. AFP

Roy Hodgson, landsliðsþjálfari enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, býst við gríðarlega vinnusömu og skipulögðu íslensku liði er lærisveinar hans mæta Íslendingum í 16-liða úrslitum Evrópumótsins.

Hodgson segist þekkja Lars Lagerbäck, annan þjálfara íslenska landsliðsins, vel og segir að jafnvel þó að Englendingar fái mikið pláss í leiknum, þá verði það alls ekki auðvelt.

Hodgson segir að Englendingar muni spila á svipaðan hátt og í leikjunum þremur í riðlakeppninni.

„Ég þekki þjálfarann Lars Lagerbäck mjög vel og hann undirbýr lið sín alltaf gríðarlega vel, þannig að við munum ekki hagnast á því að fá mikið pláss í leiknum,” sagði Hodgson.

Englendingar fengu frídag í gær en voru mættir til baka í herbúðir sínar í Chantilly í morgun þar sem þeir æfðu.

„Nú snýst allt um undirbúning og að ganga úr skugga um að við getum sagt leikmönnunum allt um Ísland og leikstíl þeirra,“ sagði Hodgson.

„Við vitum að Ísland spilaði gríðarlega vel í undankeppninni þar sem þeir voru fyrir ofan Holland, og síðan þá hafa þeir náð mögnuðum árangri, þannig að við vitum að þetta verður ekki auðveldur leikur,“ sagði Hodgson og bætti við.

„Árangur þeirra (Íslands) er byggður á mjög traustum varnarleik og ótrúlegri vinnusemi,“ sagði Hodgson.

Hodgson vill enn fremur að Englendingar verði beittari á síðasta þriðjungi vallarins. „Hlutfall þeirra færa sem við sköpum í samanburði við nýtingu þeirra er ekki gott og það þarf að bæta. Það eru allir meðvitaðir um að það væri fínt að breyta því á mánudagskvöld.“

Lars Lagerbäck stýrir Íslandi gegn Austurríki í gær.
Lars Lagerbäck stýrir Íslandi gegn Austurríki í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert