Lars viss um að Zlatan stendur sig

Zlatan Ibrahimovic náði ekki að setja svip sinn á EM …
Zlatan Ibrahimovic náði ekki að setja svip sinn á EM en nú fer hann til Englands. AFP

Lars Lagerbäck var á fréttamannafundi íslenska landsliðsins í Annecy í dag spurður út í landa sinn Zlatan Ibrahimovic og komu hans til Manchester United sem var formlega opinberuð í gær.

„Þetta er gott á ferilskrána hans, og fyrir Manchester United. Hann er að sjálfsögðu ekki að yngjast en eina félagið þar sem hann hefur ekki átt virkilega vel heppnaðan feril er Barcelona. Ef hann heldur sér í góðu formi og er laus við meiðsli verður afar áhugavert að sjá hann í ensku úrvalsdeildinni. Ég er viss um að hann mun standa sig vel," sagði Lars.

Eins og flestum er eflaust kunnugt lék Zlatan lengi undir stjórn Lagerbäcks með sænska landsliðinu á sínum tíma. Hann rak Zlatan og tvo aðra leikmenn úr landsliðshópnum fyrir leik gegn Liechtenstein í undankeppni EM 2008 þegar þeir stálust út af hóteli landsliðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert