Hörður Björgvin á leið til Englands

Hörður Björgvin Magnússon er á leið til Bristol.
Hörður Björgvin Magnússon er á leið til Bristol. AFP

Hörður Björgvin Magnússon, landsliðsmaður í knattspyrnu, er á leið til enska B-deildarfélagsins Bristol City en þetta staðfesti hann við mbl.is í dag. Enska félagið kaupir hann frá ítalska meistaraliðinu Juventus.

Hörður, sem er 23 ára gamall varnarmaður, gekk til liðs við Juventus á láni frá Fram í byrjun árs 2011. Félagið framlengdi lánið sex mánuðum síðar og í byrjun árs 2012 var hann keyptur til ítalska meistaraliðsins.

Hann var í láni hjá ítalska B-deildarliðinu Spezia árið 2013 en síðustu tvö tímabil hefur hann leikið með Cesena, bæði í A-deildinni og B-deildinni.

Hörður er nú á leið til enska B-deildarliðsins Bristol City en Juventus samþykkti þriggja milljóna evra kauptilboð í leikmanninn sem gerir hann að dýrasta leikmanni í sögu félagsins. Tilboðið var samþykkt fyrir Evrópumótið en Hörður skoðaði aðstæður hjá félaginu fyrir helgi.

Hann gerir þriggja ára samning við Bristol City en þjálfari liðsins er Lee Johnson, sem lék með liðinu frá 2006 til 2012.

Bristol City var nýliði í ensku B-deildinni á síðasta tímabili en liðið lenti í 18. sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert