Jóhann Berg í Burnley

Jóhann Berg með Burnley-treyjuna.
Jóhann Berg með Burnley-treyjuna. Ljósmynd/http://www.burnleyfootballclub.com/

Landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson hefur opinberlega verið kynntur sem leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Burnley í knattspyrnu.

Jóhann Berg er fyrstu stóru kaup félagsins fyrir komandi tímabil en hann semur við liðið til ársins 2019 með möguleika á árs framlengingu. Kaupverðið er ekki gefið upp en talið er að það sé 2,5 milljónir punda, eða um 400 milljónir íslenskra króna.

Jóhann Berg heillaði forráðamenn Burnley bæði á EM og á síðustu leiktíð en hann átti flestar stoðsendingar allra í ensku B-deildinni í fyrra, 11 talsins, en þrátt fyrir það féll Charlton úr deildinni.

„Það er frábært að vera hérna. Þetta félag hefur sýnt mér mikinn áhuga og ég er mjög ánægður að fá að spila fyrir Burnley,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson á heimasíðu Burnley og hafði það einnig á orði að fjölskyldustemningin og nándin innan félagsins væri afar heillandi.

„Jóhann er að okkar mati gæðaleikmaður sem við sáum á síðustu leiktíð hjá Charlton á erfiðum tímum og okkar líkaði það sem við sáum af honum,“ sagði Sean Dyche, stjóri Burnley, í dag.

„Það hjálpar að sjá leikmanninn á Evrópumótinu í svona félagsskap og hann gerði vel þar. Við vorum öll sammála um að þetta væru góð kaup fyrir félagið,“ sagði Sean Dyche meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert