Aðeins 13 leikmenn og þjálfarinn á förum?

Útlitið er ansi dökkt fyrir Steve Bruce og lærisveina hans …
Útlitið er ansi dökkt fyrir Steve Bruce og lærisveina hans í Hull City. AFP

Nýliðar Hull City í ensku úrvalsdeildinni eru aðeins með þrettán leikmenn til taks þegar rétt tæpur mánuður er í að deildin hefjist.

Miðvörður þeirra og fyrirliði, Michael Dawson meiddist á dögunum og í dag varð ljóst að hann verður frá í þrjá mánuði vegna hnémeiðsla.

Á mánudag meiddist bakvörður þeirra, Moses Odubajo og verður frá í hálft ár en fyrr í mánuðinum meiddist markvörður þeirra, Allan McGregor í baki og Alex Bruce á hásin og verða þeir frá í á milli fjögura til sex mánaða.

Er þá ótalinn sjálfur skipstjórinn í brúnni, Steve Bruce, sem hefur verið sterklega orðaður við starf landsliðsþjálfara Englands. Hefur félagið meðal annars gefið út yfirlýsingu þess efnis að enska knattspyrnusambandið þurfi að drífa sig í að ganga frá ráðningunni þar sem hún truflar undirbúning félagsins.

Hull mætir Englandsmeisturum Leicester í fyrsta leik þann 13. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert