Mourinho hefur fulla trú á Sam

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, á blaðamannafundi í Shanghai í …
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, á blaðamannafundi í Shanghai í dag. AFP

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, telur að Sam Allardyce sem búist er við að verði ráðinn þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu karla muni vegna vel í því starfi og sé rétti maðurinn í starfið.

Mourinho sem gagnrýndi Sam fyrir að leika gamaldags knattspyrnu fyrir rúmum tveimur árum segir enn fremur að Sam verði að fá fullan stuðning frá enska knattspyrnusamfélaginu eigi hann að skila góðum árangri í starfi.

„Það er krefjandi verkefni að gera ensku þjóðinni til geðs inni á knattspyrnuvellinum. Ég tel Sam vera rétta manninn í starfið, en hann þarf á fullum stuðningi að halda ef vel á að fara. Enskir knattspyrnuáhugamen eiga það til að sýna þjálfurum sínum ekki nægilega virðingu,“sagði Mourinho á blaðamannafundi í Shanghai. 

„Ég mun sýna honum virðingu í samskiptum okkar og leggja mig fram við að vera í góðu sambandi við hann. Þá mun ég sjá til þess að hjálpa ensku landsliðsmönnunum sem eru á mála hjá Manchester United að þróast og sjá til þess að þeir mæti vel undirbúnir í verkefni sín með enska landsliðinu,“ sagði Mourinho enn fremur.  

„Þetta er í fyrsta skipti sem Sam fær tækifæri til þess að stýra leikmönnum í hæsta gæðaflokki. Sam nær vel til leikmanna sinna og á auðvelt með að ná því besta út úr leikmönnum sínum. Þá nær Sam ávallt upp góðum liðsanda hjá liðum sínum. Sam hefur mikla reynslu úr ensku úrvalsdeildinni án þess þó að hafa stýrt einhverju af toppliðunum. Nú fær hann stóra tækifærið og ég held að hann sé meira en tilbúin í það,“ sagði Mourinho um kollega sinn.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert