Óttaðist að ferlinum væri lokið

Luke Shaw, leikmaður Manchester United, á blaðamannafundi í Shanghai í …
Luke Shaw, leikmaður Manchester United, á blaðamannafundi í Shanghai í dag. AFP

Luke Shaw, bakvörður Manchester United, viðurkenndi á blaðamannafundi í dag að hann hefði verið hræddur um að geta ekki leikið knattspyrnu á nýjan leik eftir að hafa fótbrotnað illa í leik með liðinu gegn PSV Eindhoven í Meistaradeild Evrópu á síðustu leiktíð.

Shaw lék fyrsta leik sinn eftir tíu mánaða fjarveru vegna fótbrotsins þegar Manchester United lagði Wigan Athletic að velli, 2:0, í æfingaleik um síðustu helgi. Shaw sagði það frábæra tilfinningu að komast aftur inn á völlinn eftir langt endurhæfingarferli. 

„Á þeirri stundu sem ég varð fyrir meiðslunum flaug sú hugsun í gegnum huga mér að þetta yrði endalok knattspyrnuferils míns. Ég hugsaði ekki mikinn um þann sársauka sem var til staðar heldur einblíndi á það hversu lengi ég yrði frá vegna meiðslanna,“ sagði Shaw á blaðamannafundi í Shanghai.

„Ég óttaðist það vissulega að ég gæti ekki snúið til baka á knattspyrnuvöllinn í upphafi endurhæfingarinnar. Þegar leið á endurhæfinguna áttaði ég hins vegar á því að ég myndi ná mér að fullu af meiðslunum. Mér líður vel eins og staðan er núna og hugsa bjartsýnn til framtíðar,“ sagði Shaw enn fremur. 

Shaw fékk hlýjar og góðar móttökur frá þeim 5.500 stuðningsmönnum Manchester United sem voru meðal áhorfenda á DW Stadium, heimavelli Wigan Athletic, á leik Manchester United og Wigan Athletic um síðustu helgi. 

„Þetta var frábær stund og mjög tilfinningaríkt að komast inn á knattspyrnuvöllinn að nýju. Stuðningsmenn tóku afar vel á móti mér og það var gott að vita af fjölskyldunni á staðnum. Það hafði mikla þýðingu fyrir mig að heyra köll stuðningsmanna okkar þegar ég komst í snertingu við boltann aftur,“ sagði Shaw um endurkomu sína. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert