Stoke með tilboð í Allen

Joe Allen lék með Wales í undanúrslitum EM í sumar.
Joe Allen lék með Wales í undanúrslitum EM í sumar. AFP

Stoke City hefur gert Liverpool 13 milljóna punda tilboð í velska miðjumanninn Joe Allen en talið er fullvíst að hann yfirgefi Liverpool í sumar.

Allen var aðeins átta sinnum í byrjunarliði Liverpool í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili en átti síðan frábæra Evrópukeppni með Wales í sumar.

BBC segir að Stoke hafi gert umrætt tilboð og ljóst sé að hans gamla félag, Swansea, vilji líka fá hann í sínar raðir. Sky Sports sagði rétt í þessu að samkvæmt heimildum hefði Liverpool þegar samþykkt tilboðið.

„Ég er ánægður með Joe, ég kann mjög vel við hann og tel að hann sé frábær fótboltamaður. Ég vissi það fyrir Evrópukeppnina og sá það líka í keppninni. Ég get ekki rætt hans mál frekar opinberlega, ég hef ekki séð hann síðan í Basel um miðjan maí,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, eftir æfingaleik liðsins við Huddersfield í gærkvöld.

Þar vísaði hann til úrslitaleiks Evrópudeildarinnar í Basel 18. maí þar sem Liverpool beið lægri hlut fyrir Sevilla, 1:3.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert