Baráttan hefur bætt okkur

Pep Guardiola stýrir æfingu Manchester City.
Pep Guardiola stýrir æfingu Manchester City. AFP

Pep Guardiola og José Mourinho munu mætast í fyrsta skipti í fjögur ár þegar nágrannaliðin Manchester City og Manchester United leiða saman hesta sína á æfingamóti í Shanghai á morgun. Athyglin mun beinast að knattspyrnustjórum félaganna sem hafa eldað grátt silfur saman.

Guardiola gerði þó lítið úr meintu ósætti hans við Mourinho þegar hann var spurður um samband þeirra á blaðamannafundi í dag. Guardiola hefur greinilega sett að baki sér rifrildi félaganna sem hófust fyrir alvöru árið 2009 þegar Guardiola stýrði Barcelona og Mourinho Inter Milan.

„Við munum að sjálfsögðu heilsast á vinalegum nótum enda báðir kurteisir menn. Við höfum enga ástæðu til þess að vera gramir út í hvor annan. Af hverju ættum við ekki að heilsast og spjalla saman?“ sagði Guardiola á blaðamannafundi í Shanghai í dag.

Guardiola og Mourinho háðu svo margar eftirminnilegar rimmur í kringum leiki erkifjendanna Barcelona og Real Madrid þegar þeir voru við stjórnvölinn hjá spænsku stórveldunum. Guardiola og Mourinho hafa mæst 16 sinnum og Guardiola hefur haft betur sjö sinnum, Mourinho þrisvar og sex sinnum hafa lið þeirra gert jafntefli. 

Mourinho hefur þó betur þegar kemur að fjölda titla á ferilskránni, en mjótt er á mununum þar. Mourinho hefur unnið 22 titla sem knattspyrnustjóri og Guardiola 21. 

„Við erum báðir keppnismenn og förum í alla leiki til þess að vinna þá. Leikurinn á morgun er þó vináttuleikur og við munum ekki láta kappið bera fegurðina ofurliði. Barátta okkar Mourinho hefur gert okkur báða að betri knattspyrnustjórum að mínu mati,“ sagði Guardiola enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert