Nauðlending hjá leikmönnum Man.Utd

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, stýrir æfingu liðsins í Shanghai.
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, stýrir æfingu liðsins í Shanghai. AFP

Það hefur ýmislegt gengið á í æfingaferð Manchester United í Kína, en flugvélin sem ferjaði hluta leikmanna og forráðamanna liðsins til Peking þurfti að nauðlenda vegna aftakaveðurs sem geisar um Kína þessa dagana.

„Við neyddumst til þess að skipta hópnum í tvennt og gátum ekki ferðast saman. Fyrra flugið gekk áfallalaust fyrir sig en sömu sögu er hins vegar ekki að segja af seinna fluginu. Þeir þurftu að nauðlenda og bíða í nokkra tíma. Þeir voru svo að koma á hótelið eftir miðnætti,“ segir Mourinho um hrakfarir Manchester United í ferðinni. 

Mourinho er lítt hrifinn af því að ferðast svona langt til þess að fara í æfingaferð, en gerir sér þó grein fyrir því að þetta er mikilvægt fyrir fjárhag félagsins og til þess að efla tengsl við stuðningsmenn í þessum heimshluta. 

„Við gerum þetta fyrir stuðningsmennina auk þess sem þetta hjálpar til þess að afla fjár fyrir félagið. Það er góð stemmning í hópnum þrátt fyrir atburði síðustu daga. Ég hlakka aftur á móti mjög til þess að snúa aftur til Manchester og hefja undirbúning þar fyrir ensku úrvalsdeildina,“ sagði Mourinho enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert