Sáuð þið hvað hann var glaður?

Riyad Mahrez.
Riyad Mahrez. AFP

Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Leicester City, gerir sér áfram vonir um að halda Riyad Mahrez hjá félaginu en hann hefur verið sterklega orðaður við Arsenal sem er sagt tilbúið til að greiða  50 milljónir punda fyrir hann.

Hinn 25 ára gamli Mahrez var besti maður vallarins í gær þegar Leicester gerði jafntefli, 1:1, við Skotlandsmeistara Celtic í æfingaleik í Glasgow og skoraði mark liðsins. Vítaspyrnukeppni var í leikslok til að útkljá viðureignina og þar vann Leicester, 6:5, þar sem Kasper Schmeichel varði síðustu spyrnu Skotanna.

„Sáuð þið hvað Riyad var glaður? Hann lék geysilega vel, lagði afar hart að sér fyrir liðið, skoraði mark - og hann verður kyrr hjá okkur. Það er afar mikilvægt fyrir okkur að halda honum, hann er einn af okkar lykilmönnum. Önnur lið eru með fullt af stjörnuleikmönnum og kannski þarf hann þá að sitja á bekknum, og það er því miklu betra fyrir hann að spila áfram hjá mér,“ sagði Ranieri við fréttamenn.

Mahrez var kjörinn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili en félagið keypti hann af Le Havre í Frakklandi fyrir 400 þúsund pund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert