Hafnaði Barcelona til að vinna með Guardiola

Nolito á blaðamannafundi með spænska landsliðinu.
Nolito á blaðamannafundi með spænska landsliðinu. AFP

Spænski sóknarmaðurinn Nolito hafnaði Barcelona í sumar og gekk þess í stað til liðs við Manchester City.

Enska liðið greiddi Celta Vigo 13,8 milljónir punda fyrir spænska landsliðsmanninn. Sjálfur segir Nolito að hann hafi ákveðið að ganga til liðs við City til að fá tækifæri til að vinna aftur með Pep Guardiola, knattspyrnustjóra liðsins, en Nolito lék undir stjórn Guardiola með Barcelona fyrir fimm árum.

„Ég naut þess að vinna með honum hjá Barcelona þó að samstarfið væri ekki langlíft. Þetta er hluti af ástæðunni. Einnig snýst þetta um City en liðið er frábært. Ég vil hjálpa þeim að afreka stóra hluti,“ sagði Nolito.

„Ég held að þetta sé best fyrir mig og minn feril. Það verður gaman að spila í úrvalsdeildinni undir stjórn Guardiola. Það tók mig ekki nema tvo daga að ákveða mig og ég er mjög ánægður,“ bætti Nolito við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert