Leik Manchester United og City aflýst

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

Stuðningsmenn Manchester United og granna þeirra í City verða að bíða lengur eftir fyrstu viðureign liðanna undir stjórn knattspyrnustjóranna José Mourinho og Pep Guardiola.

Liðin áttu að mætast í leik á æfingamóti í Kína í dag en leiknum hefur verið frestað vegna slæmra vallarskilyrða. Áður hafði José Mourinho, knattspyrnustjóri United, kvartað yfir ástandi vallarins í Peking.

„Að mínu mati eru íbúar Peking óheppnir því völlurinn er mjög slæmur. Ástand leikmanna minna er mun mikilvægara en úrslit í æfingaleikjum,“ sagði Mourinho á blaðamannafundi í gær.

Ferðin hafði ekki gengið áfallalaust fyrir sig hjá United en flug­vél­in sem ferjaði hluta leik­manna og for­ráðamanna liðsins til Pek­ing þurfti að nauðlenda vegna veðurs um helgina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert