Vill komast í enska landsliðið

Adebayo Akinfenwa er í svakalegu formi.
Adebayo Akinfenwa er í svakalegu formi. AFP

Adebayo Akinfenwa, leikmaður Wycombe Wanderers í ensku D-deildinni, vill ólmur komast í enska landsliðshópinn, en til þess að það gangi upp er hann með ákveðnar óskir sem knattspyrnusambandið þarf að uppfylla.

Akinfenwa, sem er 34 ára gamall framherji, gekk til liðs við Wycombe á dögunum, en hann er líklega vöðvastæltasti knattspyrnumaður Bretlandseyja.

Hann telur sig hafa alla burði til þess að leika með enska landsliðinu en hann trúir því að hann geti galdrað fram eitthvað sérstakt á vellinum síðustu sautján mínúturnar í leikjum liðsins.

Akinfenwa er þó með séróskir ef hann á að spila með landsliðinu. Það þarf að vera kjúklingur í öll mál.

„Ég ætla að koma hreint fram með þetta. Ef ég á að spila með enska landsliðinu í framtíðinni þá þarf knattspyrnusambandið að bjóða upp á kjúkling fyrir leiki,“ sagði Akinfenwa.

„Það er það eina sem ég þarf. Ef það er kjúklingur þá er ég mættur, ef ekki þá er ég ekki klár í landsliðshópinn. Þetta tengist ekki hroka neinn hátt, þetta er bara það sem ég þarf að borða.“

„Stóri Sam, hlustaðu á mig. Sendu mér skilaboð á WhatsApp, því mér finnst eins og ég geti verið öflugur síðustu 17-20 mínúturnar í leikjunum. Þú setur mig inná, ég mæti á fjærstöngina og skora. Ég og Carroll saman frammi,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert