Beckham reyndi að fá Zlatan

Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. AFP

Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic hefur upplýst að David Beckham hafi reynt að fá hann til liðs við nýja félagið sem hann hefur stofnað í Miami á Flórída en hann hafi valið að spila fyrir sinn góða vin José Mourinho hjá Manchester United.

Zlatan útilokar hins vegar ekki að fara síðar til Bandaríkjanna en reiknað er með að lið Beckhams fái aðild að MLS-deildinni árið 2018.

„David er góður vinur minn og hann bað mig um að spila fyrir liðið sitt. Sem stendur vil ég gera stóra hluti með Manchester United en ég ber mikla virðingu fyrir MLS og allt er mögulegt. Ég útiloka ekki að fara þangað. Ég hafði úr mörgum kostum að velja þegar ég yfirgaf PSG en það er eðlilegt þegar Zlatan á í hlut!“ sagði Svíinn við goal.com.

„Ég veit að lið í MLS voru áhugasöm en þegar ég fékk tækifæri til að spila með Manchester United og að sjálfsögðu að vinna með mínum góða vini José Mourinho var útilokað að hafna því,“ sagði Zlatan enn fremur.

„Ég myndi aldrei útiloka MLS seinna meir. Ég er samningsbundinn Manchester United en er í fínu formi. Mér finnst að ég geti spilað til fertugs. Það er ómögulegt að segja fyrir um framtíðina,“ sagði Zlatan sem verður 35 ára í haust og mætti til æfinga hjá United í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert