Klopp ætlar að ræða við Sakho

Jürgen Klopp sendi Sakho heim.
Jürgen Klopp sendi Sakho heim. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, fullyrðir að franski varnarmaðurinn Mamadou Sakho eigi enn þá framtíð hjá liðinu þrátt fyrir að hafa verið sendur heim úr æfingaferð liðsins.

Liverpool er við æfingar í Bandaríkjunum en fyrsti leikur liðsins í ensku úrvalsdeildinni er gegn Arsenal 14. ágúst. Sakho var rekinn heim eftir að hann mætti of seint í flug, of seint í mat og skrópaði í meðhöndlun vegna meiðsla.

„Ég er að byggja upp hóp hér og við þurfum að byrja upp á nýtt. Ég taldi því eðlilegt að hann færi heim til Liverpool. Síðan ræðum við málin eftir átta daga þegar við komum heim,“ sagði Klopp.

„Hann missti næstum því af fluginu, hann skrópaði í meðhöndlun og var of seinn í mat,“ sagði Klopp.

Knattspyrnustjórinn segist ekki hafa áhuga á því að sekta Sakho vegna málsins. „Ég hef ekki áhuga á peningum leikmanna. Ég hef ekki oft sektað menn en það er vegna þess að ég vil að menn læri hvað er rétt að gera,“ bætti Klopp við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert