Mourinho hefur ekki not fyrir Schweinsteiger

Bastian Schweinsteiger.
Bastian Schweinsteiger. AFP

Fyrrverandi þýska landsliðsmanninum Bastian Schweinsteiger hefur verið sagt að finna sér nýtt lið. José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, telur sig ekki hafa not fyrir Þjóðverjann á komandi keppnistímabili.

Enskir miðlar greina frá þessu nú í morgunsárið en Schweinsteiger gekk til liðs við United fyrir ári. Hann kom einungis við sögu í 13 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili en Mourinho vill hafa kraftmeiri leikmann á miðri miðjunni.

Schweinsteiger er nú þegar talinn aftarlega í goggunarröð miðjumanna og koma franska landsliðsmannsins Pauls Pogba mun ýta honum enn aftar í röðina. Hann er einn níu leikmanna sem Mourinho ætlar að losa sig við en aðrir eru til að mynda Adnan Januzaj, Tyler Blackett og Paddy McNair.

Schweinsteiger var fyrirliði þýska landsliðsins en hann tilkynnti nú í morgun að hann hefði leikið sinn síðasta landsleik. Hann lék 120 landsleiki og skoraði 24 mörk og var fyrirliði þegar Þýskaland varð heimsmeistari fyrir tveimur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert