Undirbúningurinn erfiður hjá Klopp

Daniel Sturridge.
Daniel Sturridge. AFP

Sóknarmaðurinn Daniel Sturridge telur að núverandi undirbúningstímabil, undir stjórn Jürgen Klopp, sé það erfiðasta á hans ferli sem atvinnumaður í knattspyrnu.

Sturridge og félagar hans í Liverpool eru við æfingar og keppni í Bandaríkjunum en keppni í ensku úrvalsdeildinni hefst eftir tvær vikur. Sturridge vonast til að forðast meiðsli á komandi keppnistímabili en á því síðasta kom hann einungis við sögu í 25 leikjum og var talsvert frá vegna meiðsla.

„Þetta hefur verið mikil vinna, við hlaupum mikið og förum yfir leikaðferðir. Undirbúningstímabilin snúast um að ögra líkamanum og maður þarf að gera allt til að vera í góðu formi,“ sagði Sturridge.

„Þetta er ábyggilega ákafasta og erfiðasta undirbúningstímabil sem ég hef upplifað. Vonandi verður þetta til þess að við höldumst í góðu standi á komandi tímabili,“ bætti Sturridge við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert