Mikið sjálfstraust hjá mér og liðinu

Jón Daði Böðvarsson í leik með íslenska landsliðinu gegn Ungverjalandi …
Jón Daði Böðvarsson í leik með íslenska landsliðinu gegn Ungverjalandi á EM 2016. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Jón Daði Böðvarsson hefur stimplað sig rækilega inn hjá Wolves á sinni fyrstu leiktíð með liðinu, en hann hefur skorað tvö mörk í fyrstu fjórum deildarleikjum liðsins. Jón Daði skoraði þriðja mark Wolves í 3:1 sigri liðsins gegn Birmingham City, en liðið er taplaust í deildinni eftir fjórar umferðir og situr í þriðja sæti ensku B-deildarinnar í knattspyrnu. 

„Enska B-deildin í knattspyrnu er nákvæmlega eins og ég bjóst við, þetta er líkamlega erfið deild og það er þétt dagskrá. Við spilum tvo leiki í hverri viku sem tekur verulega á. Við þurfum þar af leiðandi að vinna vel í endurheimt á milli leikja og vera snöggir að undirbúa okkur andlega fyrir næsta leik,“ sagði Jón Daði í samtali við Expressandstar.

„Það er mikið sjálfstraust í liðinu þessa stundina og mér líður vel andlega og líkamlega. Ég er virkilega sáttur við að við höfum náð að tryggja okkur þrjú stig um helgina. Það er góð stemming í búningsklefanum og leikmenn liðsins léttir í lundu sem hjálpar mikið,“ sagði Jón Daði um fyrstu dagana hjá nýju liði.  

„Það eru margir nýir leikmenn í leikmannhópnum, nýr knattspyrnustjóri og við erum að læra inn á hvorn annan og þá leikaðferð sem knattspyrnustjórinn vill að við spilum. Vonandi náum við að halda stöðugleika og standa okkur vel á þessari leiktíð,“ sagið Jón Daði um framhaldið hjá Wolves. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert