Bony eða Zaza til West Ham

Slaven Bilic á vináttuleik West Ham gegn Juventus fyrr í …
Slaven Bilic á vináttuleik West Ham gegn Juventus fyrr í sumar. AFP

Knattspyrnustjóri West Ham United, Slaven Bilic, hefur staðfest að framherjarnir Wilfried Bony og Simone Zaza séu möguleikar sem standi enska úrvalsdeildarliðinu til boða áður en leikmannaglugginn lokar 1. september. 

West Ham er í framherjakrísu eftir að Andy Carroll og nýliðinn Andre Ayew meiddust. Ayew kom til liðsins í sumar fyrir um 20,5 milljónir punda en meiddist í fyrsta deildarleiknum og verður að öllum líkindum frá til desembermánaðar. 

„Við vorum orðaðir við Zaza á síðasta ári og hann er toppleikmaður. Þá vorum við í sambandi við hann, sjáum hvað setur,“ sagði Bilic um Simone Zaza. 

„Bony er einnig möguleiki vegna þess að hann leikur í stöðunni sem við leitum að. Ég læt þessi mál eftir formanninum og framkvæmdastjóranum,“ sagði Bilic enn fremur um Wilfried Bony. 

Simone Zaza er 25 ára Ítali sem hefur verið á mála hjá Juventus frá síðasta sumri. Á síðasta tímabili átti hann ekki fast sæti í byrjunarliðinu og kom aðeins við sögu í 19 leikjum fyrir ítalska liðið. 

Wilfried Bony er tveimur árum eldri, 27 ára, og spilar með Manchester City í ensku úrvalsdeildinni. Hann gekk í raðir liðsins jólin 2015 en hefur lotið í lægra haldi fyrir framherjanum Sergio Agüero og vermir nú varamannabekkinn mestmegnis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert