Wenger tekur upp veskið

Shkodran Mustafi er á leið til Arsenal.
Shkodran Mustafi er á leið til Arsenal. AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Arsenal er að ganga frá kaupum á þýska landsliðsmanninum Shkodran Mustafi frá Valencia. Það er BBC sem greinir frá þessu en Arsenal greiðir um það bil 35 milljónir punda fyrir þjónustu hans.

Mustafi, sem átti gott mót með þýska landsliðinu á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar, hefur verið orðaður við stærstu félög heims síðustu vikur, en greint var frá því fyrir stuttu að hann væri í viðræðum við Arsenal.

Útlit var fyrir að Arsenal myndi ekki landa leikmanninum en BBC greinir nú frá því að samkomulag sé í höfn við Valencia. Arsenal greiðir 35 milljónir punda fyrir Mustafi sem á aðeins eftir að semja um kaup og kjör við enska félagið.

Mustafi þekkir vel til á Englandi en lék með Everton frá 2009 til 2012. Hann lék þó aðeins einn leik með félaginu áður en hann fór til Sampdoria á Ítalíu. Þaðan fór hann svo til Valencia en hann á 78 leiki og 6 mörk að baki fyrir félagið.

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur verið gagnrýndur undanfarnar vikur fyrir að sýna ekki öðrum félögum samkeppni á markaðnum, en hann er nú að ganga frá kaupum á Mustafi og Lucas Perez, sóknarmanni Deportivo La Coruna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert