Tveir á leið í læknisskoðun hjá Arsenal

Shkodran Mustafi í leik með þýska landsliðinu á EM í …
Shkodran Mustafi í leik með þýska landsliðinu á EM í Frakklandi. AFP

Knattspyrnumennirnir Shkodran Mustafi og Lucas Perez eru á leið til Lundúna þar sem þeir munu gangast undir læknisskoðun fyrir félagaskipti þeirra beggja til Arsenal. Sky Sports greinir frá þessu.

Mustafi, sem er þýskur miðvörður og lék síðast fyrir Valencia, mun væntanlega skrifa undir fimm ára samning og er kaupverðið talið vera um 35 milljónir punda.

Framherji Deportivo la Coruna, Lucas Perez, er einnig samkvæmt Sky á leið til Arsenal, en Arsene Wenger, stjóri liðsins, sagði á dögunum að hann væri 99% viss um að ná að styrkja liðið áður en félagsskiptaglugganum yrði lokað næsta miðvikudag.

Ljóst er að Arsenal-menn verða fegnir að fá styrkingu í vörnina. Þrátt fyrir að hafa keypt Rob Holding frá Bolton eru þeir þunnskipaðir í öftustu varnarlínu með fyrirliðann Per Mertesacker meiddan fram yfir áramót og Brasilíumannin Gabriel Paulista meiddan næstu fjórar vikurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert