„Horfðu á andlitið á mér“

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. AFP

Franski knattspyrnustjórinn og hagfræðingurinn Arsene Wenger segir að kaup Arsenal á þeim Lucas Pérez og Shkodran Mustafi fyrir 52 milljónir punda séu ekki „panikk“-kaup og að stuðningsmenn liða í úrvalsdeildinni muni verða ansi hissa að sjá hversu mörg kaup muni ganga í gegn á næstum dögum. Það sé tilkomið vegna hinna gríðarlega háu sjónvarpssamninga.

Pérez kemur til Arsenal frá Deportive La Coruna á 17,1 milljón punda og Mustafi frá Valencia á 35 sem gera samtals 52 milljónir punda sem er ansi mikill peningur. Spurður hvort þessi hafi verið gerð í óðagoti sagði Wenger: „Horfðu á andlitið á mér. Er þetta andlit þess sem fer út í „panikk“-kaup?“ spurði Wenger og brosti.

„Nei, þannig er mál með vexti að allir eru að bíða eftir að landa samningum. Þegar (erlent) félag vill kaupa af ensku félagi biður það um gríðarlega háa upphæð. Það tekur langan tíma (að finna rétt verð). Á næstu tveimur til þremur dögum munu allir komast að samkomulagi,“ sagði Wenger við The Guardian.

Úrvalsdeildarfélög á Englandi hafa þegar eytt 900 milljónum punda, sem er met, en fyrir ári var heildarupphæðin 870 milljónir punda. Wenger segir þetta rökrétta afleiðingu af hinum fimm milljarða punda sjónvarpssamningi sem gerður var fyrir tímabilið og félögin njóta góðs af.

Spurður hvort hann búist við því að heildarkaupin fari yfir milljarð punda sagði Wenger svo vera.

„Milljaður? Hærra en það. Ég veit ekki hversu hátt en ég er sannfærður um að mörg félög á Englandi hafa á að skipa miklum peningum sem þau hafa ekki enn eytt. Mörg. En þú getur sagt þau öll. Hver er hættur að versla? Enginn. Þið munuð sjá mörg kaup ganga í gegn á næstu þremur eða fjórum dögum. Það mun koma ykkur á óvart,“ sagði Wenger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert