Vill vera hjá Tottenham út ferilinn

Harry Kane.
Harry Kane. AFP

Englendingurinn Harry Kane hjá Tottenham sem varð markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð líður afar vel hjá félaginu og gæti hugsað sér að vera þar út ferilinn.

Hann verður í eldlínunni á eftir er Liverpool mætir í heimsókn á White Hart Lane en leikurinn hefst klukkan 11:30.

„Mér þætti frábært að fá að vera hérna. Félagið er í góðu standi í augnablikinu og er að taka framförum, það er mikilvægt,“ sagði Kane.

„Ég gæti vel hugsað mér að vera hérna út ferilinn. En við þurfum bara að sjá hvað setur,“ sagði Kane við Sky Sports.

Spurður hvort Tottenham muni láta sér það nægja að vera í einu af efstu fjórum sætunum segir Kane svo ekki vera.

„Nei, ég myndi ekki segja það. Við viljum bæta okkur frá síðustu leiktíð og viljum vera betri. Við erum ekki hræddir við neinn og hræðumst ekki neina leikmenn eða stjóra,“ sagði Kane en Tottenham varð í 3. sæti deildarinnar á síðustu leiktíð og lengi vel í titilbaráttu. 

Kane segir það jákvætt að Mauricio Pochettino hafi ekki keypt meira af leikmönnum en raun ber vitni í sumar.

„Lið kaupa leikmenn og skipta um stjóra ef þau telja að þörf sé á því. Stjórinn taldi okkur ekki þurfa á því að halda. Hann var ánægður með hópinn sinn,“ sagði Kane.

„Hann bætti við nokkrum frábærum leikmönnum og við erum ánægðir,” sagði Kane.

Í lið Tottenham í sumar hafa aðeins þeir Vincent Janssen frá AZ Alkmaar og Victor Wanyama frá Southampton komið til félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert