Pabbinn selur kolkrabba í London

Arsene Wenger er að ganga frá kaupum á tveimur leikmönnum.
Arsene Wenger er að ganga frá kaupum á tveimur leikmönnum. AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Arsenal er við það að ganga frá kaupum á spænska framherjanum Lucas Perez en hann kemur frá Deportivo La Coruna. Guillem Balague, einn helsti sérfræðingurinn um spænska boltann, var með nokkrar áhugaverðar staðreyndir um hann.

Perez, sem er 27 ára gamall, skoraði 17 mörk í spænsku deildinni með Deportivo á síðustu leiktíð, en hann mun skrifa undir langtímasamning á næstu dögum.

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, mun þá ganga frá kaupum á honum og Shkodran Mustafi, sem kemur frá Valencia, en Balague ræddi um Perez á samskiptavef Twitter.

„Þegar einhver skorar 17 mörk í spænsku deildinni þá er það nokkuð ljóst að það eru frábær kaup, sérstaklega þegar hann gerði þessi mörk fyrir Deportivo,“ sagði Balague.

„Hann er snöggur, með öflug skot með vinstri fæti, klár og hefur nú þegar spilað í spænska boltanum. Hann getur spilað sem nía eða úti á hægri vængnum.“

„Það er einnig gaman að segja frá því að pabbi hans er að selja kolkrabba á bás á Camden-markaðnum í London, þannig það eru enn fleiri ástæður til að hann ætti að koma til London,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert