Boufal verður dýrasti leikmaður Southampton

Sofiane Boufal.
Sofiane Boufal. AFP

Enska úrvalsdeildarfélagið Southampton hefur fest kaup á Sofiane Boufal, landsliðsmanni Marokkó, fyrir 16 milljónir punda. Boufal varð þar með dýrasti leikmaðurinn í sögu félagsins.

Boufal er sókndjarfur miðjumaður og kemur til Southampton frá franska liðinu Lille. Hann er einungis 22 ára gamall og skoraði 11 mörk í frönsku deildinni á síðustu leiktíð.

Kaupverðið, 16 milljónir punda eða sem nemur um 2,5 milljörðum króna, nægir til að gera miðjumanninn dýrasta leikmann sögunnar hjá Southampton en fyrra metið átti framherjinn Dani Osvaldo sem keyptur var á 15 milljónir punda árið 2013.

Frakkinn Claude Puel, sem tók við sem knattspyrnustjóri Southampton eftir brotthvarf Ronalds Koeman til Everton, hefur þar með tryggt sér þrjá sterka leikmenn fyrir komandi átök. Áður höfðu Nathan Redmond og Pierre Emile Hojberg gengið til liðs við „Dýrlingana“.

Mikill fjöldi leikmanna hefur farið frá Southampton á undanförnum árum. Má þar nefna Luke Shaw og Morgan Schneiderlin sem fóru til Manchester United, Adam Lallana, Nathaniel Clyne, Dejan Lovren og Sadio Mané til Liverpool, Victor Wanyama til Tottenham og Graziano Pellé til Shandong Luneng í Kína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert