„Buðu peninga til að taka 15 ára barn“

Manchester City á að hafa boðið 50.000 pund fyrir 15 …
Manchester City á að hafa boðið 50.000 pund fyrir 15 ára gamlan leikmann, en sú upphæð gat hækkað upp í 1.050.000 pund að gefnum ákveðnum skilyrðum. AFP

Manchester City reyndi að lokka til sín 15 ára gamlan knattspyrnumann, þvert gegn reglum, samkvæmt kvörtun sem argentínska knattspyrnufélagið Velez Sarsfield hefur sent til FIFA.

Forráðamenn Velez vilja meina að City hafi brotið reglur þegar félagið reyndi að kaupa Benjamin Garre. City fékk leikmanninn til sín í júlí, þegar hann var orðinn 16 ára, og hafði betur í samkeppni við Manchester United og Barcelona. Kvörtun Velez snýr að því að City hafi áður verið búið að gera tilboð í leikmanninn, þegar hann var 15 ára. Tilboðið mun hafa hljóðað upp á 50.000 pund, en upphæðin gat hækkað upp í 1.050.000 pund að gefnum ákveðnum skilyrðum, segja forráðamenn Velez, sem höfnuðu tilboðinu.

„Ég hef aldrei upplifað svona siðlaust framferði,“ sagði Raul Gamez, forseti Velez, við Daily Telegraph. „Þeir buðu peninga til að taka 15 ára barn sem er í miðju þroskaferli. Við vitum ekki hvað þeir buðu föður barnsins og barninu sjálfu til að sannfæra þá,“ sagði Gamez.

City-menn segjast ekkert rangt hafa gert. Þeir hafi haft rétt á að semja við Garre þegar hann varð 16 ára gamall í ljósi þess að hann sé með ítalskt vegabréf. Ekki má kaupa leikmenn frá löndum utan Evrópusambandsins nema þeir hafi náð 18 ára aldri, samkvæmt reglum FIFA.

Forráðamenn Velez eru engu að síður sagðir vongóðir um að City verði refsað á sama hátt og Barcelona, Real Madrid og Atlético Madrid hefur verið refsað á síðustu árum fyrir kaup á of ungum leikmönnum. Þeir segjast tilbúnir að fara með málið alla leið fyrir Alþjóðaíþróttadómstólinn, CAS, gerist þess þörf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert