Rooney svarar fyrir sig

Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United.
Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United. AFP

Wayne Rooney hefur verið harðlega gagnrýndur að undanförnu vegna frammistöðu sinnar með Manchester United en hann segir sjálfur að margt af því sem sagt hefur verið og skrifað sé algjört kjaftæði.

 „Ég hef þurft að eiga við þetta allan minn feril. Kannski heldur meira að undanförnu, held ég , en svona er fótboltinn,“ sagði Rooney við Daily Mirror um gagnrýnina sem hann hefur fengið.

United mætir Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í hádeginu á laugardag og segir Mirror að svo gæti farið að Rooney missi sæti sitt í byrjunarliði United.

„Ég hlusta á þjálfarana mína og liðsfélaga, fólkið í kringum mig, og ég hlusta eiginlega ekkert á hvað fólkið þarna úti er að segja því að margt af því sem sagt er er algjört kjaftæði,“ sagði Rooney.

„Ég verð bara að einbeita mér og leggja hart að mér, að sjálfsögðu, eins og ég hef gert allan minn feril. Ég hef alltaf lagt mig fram og reynt að gera mitt besta fyrir liðið,“ bætti fyrirliðinn við.

„Mér finnst ég geta spilað í öllum stöðum en stjórinn hefur tekið það skýrt fram að ég muni spila frammi eða sem tía. Eins og ég hef sagt þá snýst þetta ekki bara um mig. Allt liðið leggur hart að sér. Við áttum slæma viku en við reynum hvað við getum að snúa genginu við. Svona er fótboltinn. Við vinnum ekki í þremur leikjum í röð og auðvitað tala alir um það,“ sagði Rooney, sem sagði mikilvægt að United sneri genginu við. Liðið tapaði fyrir Manchester City og Watford í úrvalsdeildinni, og gegn Feyenoord í Evrópudeildinni, áður en liðið vann Northampton í enska deildabikarnum í gærkvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert