Giggs hefur áhuga á Gylfa

Illa hefur gengið hjá Gylfa Þór og félögum í Swansea …
Illa hefur gengið hjá Gylfa Þór og félögum í Swansea á tímabilinu. AFP

Ryan Giggs, fyrrverandi aðstoðarþjálfari Manchester United, er sagður áhugasamur um að taka við Gylfa Þór Sigurðssyni og liði Swansea fari svo að félagið reki núverandi knattspyrnustjóra. BBC greinir frá.

Giggs fór frá Untied í sumar eftir 29 ára veru sína hjá félaginu sem leikmaður og þjálfari og er sagður áhugasamur að komast aftur í þjálfarabransann. Framtíð Francesco Guidolin, stjóra Swansea, er sögð í mikilli óvissu þar sem liðið hefur aðeins fengið fjögur stig úr fyrstu fimm leikjunum.

BBC greinir jafnframt frá því að Gigs væri hins vegar eflaust ekki eini kostur forráðamanna Swansea fari svo að þeir ákveði að skipta um stjóra. Eins og mbl.is greindi frá á dögunum þá hafa velskir fjölmiðlar hins vegar sagt að stjórnarformaður Swansea, Huw Jenkins, lítist vel á Giggs.

Sjá frétt mbl.is: Verður Giggs næsti stjóri Gylfa?

Stuðningsmenn Swansea fóru í kjölfarið á flug og fóru þær fréttir ekki vel í marga þeirra. Sumir viðruðu skoðanir sínar á Twitter meðal annars um það að það væri hörmung fyrir Swansea að fá Giggs. Sjálfur brást hann við fregnum BBC í morgun að hann væri ekki að hugsa um Swansea þessa stundina, sérstaklega ekki þar sem félagið væri enn með knattspyrnustjóra við völd. BBC stóð hins vegar við fréttina.

Ryan Giggs.
Ryan Giggs. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert