Liðsfélagi Jóhanns í bann eftir ógeðfelld ummæli

Andre Gray fagnar marki með Burnley.
Andre Gray fagnar marki með Burnley. AFP

Andre Gray, liðsfélagi Jóhanns Bergs Guðmundssonar hjá enska úrvalsdeildarliðinu Burnley, hefur verið úrskurðaður í fjögurra leikja bann af enska knattspyrnusambandinu fyrir fordómafull skrif á samfélagsmiðlum.

Gray setti inn færslu á Twitter-síðu sína árið 2012 þar sem hann úthúðaði samkynhneigðu fólki og segir því að brenna og deyja. Færslunni hefur verið eytt, en í henni stóð: „Is it me or are th­ere gays everywh­ere? #Burn #Die #MakeMeSick.“

Gray fékk frest til loka ágústmánaðar til þess að svara kærunni fyrir ógeðfelldu ummælin, en enska knattspyrnusambandið kvað upp dóm sinn í dag. Hann mun missa af leikjum Burnley gegn Watford, Arsenal, Southampton og Everton.

Auk fjögurra leikja bannsins þarf Gray að borga 25 þúsund pund í sekt og fékk aðvörun hvað varðar færslur á samskiptamiðlum í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert