„Hann þarf að venjast þessu“

José Mourinho alvarlegur á svip fyrir leikinn gegn Leicester.
José Mourinho alvarlegur á svip fyrir leikinn gegn Leicester. AFP

José Mourinho vildi fá meiri hraða í sitt lið og tók þess vegna hinn þrítuga fyrirliða Manchester United, Wayne Rooney út úr byrjunarliðinu gegn Leicester.

United vann leikinn 4:1 og skoraði öll mörk sín í fyrri hálfleik og þó að liðið hafi skorað þrjú markanna úr föstum leikatriðum má segja að breytingin hafi að minnsta kosti ekki haft skaðleg áhrif.

Þegar aðalframherji okkar er Zlatan þurfum við hraða leikmenn í kringum hann,” sagði Mourinho, sem hafði þó aðeins góða hluti að segja um Wayne Rooney.

„Hvort sem hann (Rooney) er heima hjá sér eða á vellinum er hann fyrirliðinn minn. Við töldum hins vegar að gegn Leicester væri besta lausnin fyrir okkur að spila með tvo hraða stráka (Marcus Rashford og Jesse Lingard) og Mata í stöðu þar sem hann getur leikið með þeim. Það gekk vel hjá okkur,” sagði Mourinho.

Gary Neville, sparkspekingur á Sky Sports og goðsögn hjá félaginu, segir að Rooney þurfi einfaldlega að sætta sig við breytt hlutverk.

„Formið á honum hefur ekki verið neitt sérlega gott og það var rétt ákvörðun að taka hann úr liðinu. Ferill Rooney getur fengið sama endi og ferill Ryan Giggs og Paul Scholes. Hann þarf að venjast þessu og sætta sig við þetta,” sagði Neville um ákvörðun Mourinho.

Gary Neville.
Gary Neville. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert